Skip to content

Góð saga

28 apríl, 2009

Ég er að læra fyrir próf í Eigindlegum rannsóknaraðferðum og partur af lesefninu er frásögn Laura Bohannan frá því er hún segir öldungum Tiv ættbálksins í vestur-afríku söguna af Hamlet. Þetta er stórgóð lesning og ég mæli sterklega með henni.

Hér er linkurinn á pdf skjalið.

Myndin hér að neðan er í engum tengslum við frásögn Bohannan. Fannst hún bara fyndin.

Mikið búið þegar þetta er búið…

24 apríl, 2009

Ég hef ekki bloggað síðan fyrir páska. Það hefur sínar eðlilegu skýringar. Það hefur verið mikið að gera í skólanum síðasta mánuðinn (ég er ekki hættur enn!). Ég sé fram á klára þessu önn, á aðeins eftir 3 próf og 2 verkefni. Síðasta próf er 7. maí og daginn eftir á ég að mæta til vinnu á Hótel Reynihlíð sem aðstoðarmaður kokksins. Ég verð að vinna þar í sumar og leggst það bara mjög vel í mig. Ég held að ég eigi vel heima í eldhúsinu, svo fæ ég ábyggilega líka að vaska upp og þrífa eitthvað 🙂 Þuríður stækkar örlítið á hverjum degi og eykst gremjan sömuleiðis hjá henni í sama hlutfalli. Hún vill fara að klára þetta og lái henni hver sem vill. En það eru allir heilbrigðir og það gengur allt vel. Það er búið að fá barnavagn, skiptiborð, bleyjur (við ætlum í taubleyjurnar), samfellur og svo er búið að prjóna peysur, húfur og sokka. Mig hlakkar rosalega til að verða pabbi og get ekki beðið að fá að handleika krakkann. Við styttum í sífellu nafnalistan og vonandi verðum við búin að velja þegar Kólumbus ákveður að láta sjá sig.

Mig langar að nota þessa bloggsíðu til að minnast afa míns sem lést um páskana. Ég skrifaði ekki minningargrein þar sem ég hreinlega gat það ekki á þeim tíma. Ég bara gat ekki fengið mig til þess. En núna er ég búinn að kveðja afa og langar að skrifa örlítið um hann.

Á föstudaginn langa lést afi Hreinn. Hann hafði fengið slag um viku áður og var lagður inn á sjúkrahús. Talið var að hann ætti ekki mikið eftir en ekki vitað hversu mikið. Ég og Þuríður komum vestur á þriðjudegi fyrir páska. Ég kíkti á afa á miðvikudeginum en þá steinsvaf hann og við ákváðum að vekja hann ekki. Á föstudeginum fréttum við það að honum hafi hrakað og eigi ekki mikið eftir, muni jafnvel ekki lifa af daginn. Ég fór niður á sjúkrahús til að kveðja afa. Ég var engan veginn tilbúinn til að takast á við það. Afi andaði hægt og gat eki tjáð sig og varla hreyft sig. Ég átti erfitt með að horfa á hann en það hjálpaði að tala við ömmu sem sagði mér að það væri fyrir bestu að hann færi núna því að afi myndi aldrei vilja vera í hjólastól eða eiga heima á sjúkrahúsi. Ég sættist á þessi rök ömmu en var ósáttur, vildi ekki missa hann. Við fórum heim til að borða og tókum ömmu með okkur. Þegar við ætlum svo að setjast niður við matarborðið hringir síminn, amma er boðuð niður á sjúkrahús í hvelli. Hún rétt náði að kveðja afa sem lést rétt um hálf átta. Ég var bæði sáttur við að þetta væri búið en á sama tíma ekki sáttur við að missa hann. Hann átti ekki að fara strax. Hann átti að fá að halda á syni mínum.

Á laugardeginum hittist fjölskyldan öll eins venja er á páskum, við elduðum lambalæri og áttum góða stund þrátt fyrir nokkur hávaða rifrildi um homma og facebook. Ég kíkti á aldrei en mig langaði eiginlega ekki að vera þar, ég vildi helst vera heima.

Á mánudeginum keyrðum við Þuríður heim aftur til að fara í skólann og skila verkefnum. Ég flaug síðan vestur aftur á fimmtudegi. Kistulagningin var á föstudeginu, Ég hef aldrei tekið þátt í því áður. Það var mjög erfitt og ómögulegt að halda aftur af tárunum. En þetta var nauðsynlegt og mjög gott að geta kvatt afa sinn svona. Afi var jarðaður á augardeginum. Athöfnin var yndisleg. Karlakórinn Ernir söng og flutt vöru uppáhalds lögin hans afa. Ég var kistuberi og er það eitt það erfiðasta sem ég hef gert á minni stuttu ævi. En ég er svo feginn að hafa geta gert það.

Ég mun sakna hans svo ótrúlega mikið. Ég eyddi flestum af mínum æskusumrum í Aðalvík með ömmu og afa. Og ég átti heima í kjallarnum hjá þeim í næstum því tvö ár. Ég sé mest eftir því að hafa ekki verið duglegri við að heimsækja afa og vera með honum á meðan ég hafði tækifæri til. En afi var orðinn þreyttur eftir erfið veikindi og var alls ekki sáttur við stöðu sína. Minnið glöppótt og þrekið ekki að það sama og hann var vanur. Nú hvílist hann og getur gert það sem honum langar til. Ég hef minningarnar og þær eru margar. Ég mun aldrei fara til Aðalvíkur eða um borð í skektuna án þess að minnast afa míns sem kenndi mér svo margt og sagði mér svo margar sögur. Hann var stríðinn en aldrei leiðinlegur. Hann var besti afi í heimi. Megi hann hvíla í friði.

Leikur að tölum…

27 mars, 2009

Fátt fer meira í taugarnar á mér þessi vordægrin en skoðanakannanir um fylgi stjórnmálaflokka og fréttir tengdar þeim. Flestar ef ekki allar þessara kannana eru ómarktækar á svo mörgum sviðum. Hver kannast ekki við setninguna: „32% þjóðarinnar myndir kjósa Samfylkinguna ef kosið yrði nú samkvæmt nýrri könnun frá Gapacent-Gallup“ En hvað er á bakvið svona fullyrðingar?

Tökum smá dæmi (hafa ber í huga að undirritaður er læra aðferðafræði og upplýsingarýni á háskólastigi)

Dæmið okkar er skoðanakönnun sem Capacent-Gallup tók fyrir Rúv og Morgunblaðið dagana 11-17 mars 2009.

Spurt var:

„Ef kosið yrði til Alþingis í dag, hvaða flokk eða lista myndir þú kjósa?

Þeir sem voru óákveðnir voru spurðir: „En hvaða flokkur yrði líklegast fyrir valinu?“

Þeir sem enn voru óákveðnir voru spurðir: „Hvort er líklegra að þú kysir Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern hinna flokkanna?“

Ég gæti verið með langt nöldur um þessar spurningar en dæmi bara hver fyrir sig.

Úrtakið 1555 manns og svarhlutfall 62,5% eða 971 einstaklingar 18 ára og eldri

Af þessum 971 einstaklingum taka 71,7% afstöðu til spurningana eða 696 einstaklingar.
Af þessari tölu (696) finnur Gallup út fylgi stjórnmálaflokkana en tekur ekki með í reikningin þá sem ætla að skila auðu, neita að svara eða eru óákveðnir.

Svona lítur dæmið út ef fylgið er reiknað út frá þeim er tóku afstöðu (birt svona í fjölmiðlum):

konnun-gallup

En svona lítur dæmið út ef fylgið er reiknað út frá öllum sem svöruðu. (971 einstaklingur):

konnun-bhe1

Þeir sem ætla að skila auðu eru stærra stjórnmálaafl en Framsóknarflokkurinn sem einhverjum gæti þótt merkilegt.

Ég hvet fólk til að gagnrýna svona kannanir og horfa lengra en bara á myndritið sem birtist á mbl.is

Allar tölur og myndrit eru birt með fyrirvara og vitleysur og reiknimistök.

26 mars, 2009

„Weird Al“ Yankovic – Trapped in the Drive-Thru

Gjörsamleg snilld!

Ég var einu sinni nörd…

25 mars, 2009

Þegar ég var yngri þá átti ég það til að setja saman flugmódel sem þá fengust í Bimbó. Þetta var ágætis afþreying þótt að ég hefði aldrei haft þolinmæði í að klára verkið, þ.e.a.s. klára að setja límmiðana á vélarnar. Einu sinni fékk ég módel af fiskibát í jólagjöf frá afa og það þótti mér snilldargjöf og fór strax að setja saman bátinn. En þar endurtók sig sama sagan og með flugvélarnar. Þegar það kom að því að klára smáatriðin þá brast þolinmæðin og ég hætti. Ég fékk endrum og eins líka tækni Lego í gjafir eða keypti mér sjálfur og oftast nær kláraði ég þær smíðar og þegar ég geng í gegnum leikfangaverslanir þá stoppa ég oft við Lego rekkann og læt mig dreyma um að kaupa gröfuna, kranabílinn eða ýtuna. En þar sem svona flott tækni Lego kostar á bilinu 10.000 – 30.000 þús þá hef ég sleppt því.

Í dag fórum við Þuríður á Glerártorg í RL búðina og komum við í Toys R us í leiðinni, þar var tækni Lego vörubíll á tilboði 8.999 kr og munaði minnstu að ég hefði keypt gripinn. Það eina sem stoppaði mig var Mastercard reikningur síðasta tímabils sem ég þarf að borga eftir nokkra daga. En þegar ég kom heim fór ég beint á netið til að skoða úrvalið í tækni Legoi á Íslandi en eftir smá leit kom í ljós að það er ekki mikið og eins og fyrr segir, frekar dýrt. Þannig að ég snéri mér að tomstundahusid.is og skoðaði hin ýmsu módel sem þar er að finna og sú skoðun endaði með því að ég keypti 1 stk skipamódel nánar tiltekið, Hollenskt flutningaskip frá árinu 1628. Hér má finna upplýsingar um vöruna og að neðan er mynd af gripnum. Nú er bara að bíða eftir sendingunni og biðla til Þuríðar um vinnupláss 🙂

Vandró

20 mars, 2009

Þetta er klárlega klúður ársins:

Texti frá dv.is:

Meðfylgjandi myndir náðust af forsetabifreið Ólafs Ragnars Grímssonar í Bankastræti um fimmleytið í gærdag. Þar sést hvar 11,7 milljón króna Lexus LS600h lúxusbifreið forsetans er lagt í stæði fyrir fatlaða.

Samkvæmt vitnum í Bankastræti í gær beið einkabílstjóri í stæðinu í allt að sex mínútur á meðan forsetahjónin sinntu einkaerindum í nærliggjandi verslunum.

Áfram Ísland!

18 mars, 2009

Nú er komið að tækifærinu til að taka þessa Makedóna í gegn í þessari reykmettaðri holu. Þetta verður erfitt og mikið mæðir á kjúklingunum. Engin Óli Stef, Logi, Arnór, Sigfús og Snorri og Alex eru tæpir. Ég er frekar stressaður og verður erfitt að horfa á þetta án Magna og Bigga. Ég mæli með að allir verði á msn í kvöld svo maður geti rætt stöðuna í hálfleik.

Ég ætla hér með að stofna Handboltaáhugamannafélagið Gústaf (nefnt í höfuðið á Gústaf Bjarnasyni) til að halda utan um handboltaáhorf og umræður.

Færslur sem eiga eiginlega heima á Fésinu

16 mars, 2009

Það er gott að vita að SkjárBíó er búinn að komast að því að fræðsluefni um Vestfirði er leiðinlegt sjónvarpsefni. Mig langar samt rosalega að fá að vita hvernig þeir komust að þeirri niðurstöðu. Er allt fræðsluefni leiðinlegt eða bara það sem fjallar um landsbyggðina?

Afhverju ætti maður að treysta á efnahagslausnir Tryggva Herbertssonar þegar hann tók lán hjá Askar Capital fyrir 150 milljón hlutum í Askar Capital með veði í hlutabréfunum sjálfum þegar hann var ráðinn forstjóri Askar Capital!

Mig langar ofboðslega að fá mér bjór með Tómasi, Bigga og Arnari og nöldra um allt milli himins og jarðar.

Ég veit ekki hvort ég geti horft á Ísland-Makedónía án Bigga og Magna.

Mér finnst að Haukur Sigurðsson eigi að klippa á sér hárið og raka af sér „skeggið“.

Þeir sem vilja sjá Cintamani dúnvesti í „action“ er bent á að smella hér.

Dúnvesti

10 mars, 2009

Akureyri er áhugaverður bær með mikið af séreinkennum sem gaman er að fylgjast með og prufa. Sæm dæmi má nefna að ef þú pantar pylsu með öllu „slöngu með kremi“ þá færð þú kokteilsósu með. Búkollan er að sjálfsögðu fræg en það er pizza með bernaise, nautakjöti og frönskum, svo hafa Akureyringar þann háttinn á að þeir eiga það til að setja franskar inn samlokur, báta og hamborgara. Rauðu ljósin á umferðarljósum bæjarins eru hjartalaga og það er líka risastórt hjarta úr ljósaseríu í hlíðinni hinumegin í firðinum. Á laugardögum panta allir pizzu á Greifanum, Jóni Spretti, Tikk Takk, Bryggjunni en helst ekki Dominos. Hér kostar stór pizza með þremur áleggstegundum á bilinu 1390-1590 kr.

En það sem vekur kannski mesta eftirtekt hér nyðra er Cintamani dúnvestismenning kvenna. Hér gengur  u.þ.b. 1/4 hluti kvenna í svokallaðri „Elínu“ eða „Elísu“. Í meðalferð í Bónus eða Glerártorg sér maður á bilinu 4-6 dúnvesti. Ég hef líka heyrt frá vinkonum mínum hér að það sé til einhver týpísk akureyrísk stelpuklipping en sem alvöru karlmaður get ómögulega greint hana frá öðrum stelpuklippingum. Meðfylgjandi er mynd af dúnvestinu margfræga og hvet ég alla þá sem eiga leið sína norður að telja hveru mörg þeir sjá.

Opinn og lýðræðislegur flokkur?

4 mars, 2009

Birti hér úrdrátt úr hálfgerðum leiðara í kynningarblaði Samfylkingarinnar um prófkjör í norðaustur kjördæmi. Höfundur textans er Jóhann Jónsson kosningastjóri. Breytingar á leturgerð er mínar.

„Kynjaregla flokksins verður viðhöfð þar sem annað kynið þarf að hafa lágmark 40% sæta framboðslistans. Einstaklingar af sama kyni skipi þó aldrei fleiri en tvö sæti í röð. Samfylkingin er opinn og lýðræðislegur flokkur og er óhræddur við að setja verk sín í dóm kjósenda. Sú leið að hafa prófkjör til Alþingiskosninga opið og um leið rafrænt sýnir að flokkurinn vill hlusta á kjósendur og nú gefst kjósendum kostur á að sýna vilja sinn í verki.“

Sem sagt, kjósendur sýna vilja sinn í verki svo lengi sem að annað kynið fái 40% sæta og að sama kynið skipi aldrei fleiri en tvö sæti í röð. Það er rosalega lýðræðislegt og opið allt saman. Þar sem prófkjörið er opið öllum þá get ég ekki séð að eitthvað komi í veg fyrir að fólk kjósi þá frambjóðendur sem því lýst á óháð kyni. En það er eins og Samfylkingin í norðausturkjördæmi haldi að fólk kjósi út frá kyni og ætli að koma í veg fyrir að það ráði för.

En ég spyr, ef fólk kýs eftir kyni, er eitthvað athugavert við það? Má fólk ekki kjósa eins og því sýnist? Er það hlutverk stjórnmálaflokka að skipta sér af því afhverju fólk kýs frambjóðendur? Ef einhverjir einstaklingar láta kynferði frambjóðenda þvælast fyrir sér þá verður bara að hafa það. Það eru svartir sauðir alls staðar og við hreinsum þá ekki út með því að takmarka vald kjósenda.

Já, maður hreinlega spyr sig!