Kvótakerfið
Var að horfa á utandagsskrárumræður um endurúthlutun kvóta. Það er merkilegt að sjá hversu fljótt umræðan fer út í upphrópanir og almenna vitleysu. Aður en tekist er á um breytingar á kvótakerfinu þarf að vera búið að svara eftirfarandi spurningum:
Er rétt/gott að hægt sé að veðsetja óveiddan fisk?
Hver á að ákveða hve mikið/hvað og hvernig má veiða?
Er rétt að sá sem fær úthlutðum kvóta geti selt/leigt hann áfram?
Hver á fiskinn í sjónum?
– Þjóðin, sveitarfélög eða sá sem fær úthlutuðum kvóta?
Þessum spurningum verður að svara áður en lengra er haldið í umræðunni. Flokkar og framboð verða að svara þessu svo að þjóðin geti gert upp hug sinn af einhverju viti.
Undirritaður er sonur sjávarútvegsfræðings og systursonur formanns Frjálslynda flokksins.
Fjúríus
Ég birti hér úrdrátt úr tveimur fréttum af dv.is um bílamál forstjóra Lífeyrissjóðs verslunarmanna. Ég er algjörlega brjálaður!! Ég borgaði í þennan lífeyrissjóð þegar ég vann hjá BT og þetta gjörsamlega gengur fram af mér!
Þorgeir Eyjólfsson, forstjóri Lífeyrissjóðs verslunarmanna, hefur þegið þrjátíu milljónir á ári í laun fyrir störf sín en auk þess keyrir hann um á tíu milljóna króna Cadillac Escalade í boði sjóðsins.
Á sama tíma og forstjórinn keyrir um á bandarískum lúxusbíl af dýrustu gerð þá tapar sjóðurinn þrjátíu og tveimur milljörðum vegna fjárfestinga sinna.
„Þetta er hluti af mínum starfskjörum,“ segir Þorgeir Eyjólfsson, forstjóri Lífeyrissjóðs verslunarmanna sem hefur þegið þrjátíu milljónir á ári í laun fyrir störf sín. Honum hefur verið útvegaður tíu milljón króna Cadillac Escalade til afnota í boði sjóðsins. Aðspurður hvort eldsneyti sé innifalið í þeim starfskjörum segir Þorgeir svo vera.
Eftir því sem DV kemst næst eyðir lúxusjeppinn um það bil 25 lítrum á hundraði í akstri innanbæjar en getur þó farið upp í 30 lítra á hundraði ef allur kraftur hans er notaður.
Sem dæmi má nefna tekur það íslenska láglaunamanneskju hundrað og fimm ár að borga lúxusjeppa Þorgeirs með iðgjöldum sínum sé miðað við fjögur prósenta gjöld. Þorgeir býr rúman kílómetra frá vinnustað sínum í Húsi verslunarinnar við Kringluna.
Ef manninum með 2.5 miljónir getur ekki keypt sér sjálfur bíl til að komast á milli staða hefði átt að gefa honum strætókort eða góða skó og regnhlíf. Eða bara Yaris! Hann á að segja af sér og þeir sem réðu hann sömuleiðis!
Já ég er helvítis fokking fokk reiður!
Myndir úr hversdagslífinu
Þegar ég lagði hér fyrir utan hjá okkur þá rak ég augun í kílómetramælinn og þar var þessi stórskemmtilega tala. Algjör tilviljun að ég náði henni.
Þessi auglýsing hangir uppi á aðalauglýsingavegg Háskólans og auglýsir hún þjónustu prófarkalesara sem er með mastergráðu í íslensku. Einhver góður grínari hefur hér tekið að sér að benda góðlátlega á smá villu í textanum. Þetta letur var alls ekki smátt, ég myndi giska á 16-18 punktar.
Þeir félagar sjá um viðhaldið á lyftunni í blokkinni okkar. Ég sé þá fyrir mér á skrifstofunni, Kristinn í skíðagallanum að nudda á sér rassinn og Jónas, blindfullur að semja Vísur Íslendinga…
Síðan hvenær urðu sópur, moppa og fægiskófla leikföng??? Vek sérstaklega athygli á myndunum neðst á pakkningunni.
Íslenska efnahagsundrið
Með því að smella hér getur þú horft á ansi hreint gott viðtal Sölva Tryggvasonar við áhættufjárfestinn Jón Hannes Smárason.
Ný uppþvottavél
Mig langar rosalega í nýja uppþvottavél. Ekki það að sú sem er fyrir á heimilinu sé eitthvað léleg, hún er bara treg í gang og þegar hún er byrjuð að þvo þá má alls ekki stoppa hana því þá byrjar hún ekki fyrr en daginn eftir. En ef hún helst í gangi þá virkar hún fínt, það væri bara gott að þurfa ekki að hafa áhyggjur af því hvort að vélin nái að klára uppvaskið. Ég læt fylgja með mynd af núverandi uppþvottavél (hún er árgerð ´84 og sett saman á Ísafirði):
Vilmundur Gylfason
Ég hef verið að glugga aðeins í sögu þessa merkilega manns. Hann var skörungur mikill og þótti ræðmaður góður. Mig langar að benda þér lesandi góður á ræðu sem Vilmundur flutti á Alþingi á alþingi 23, nóvember 1982 (ræðan fyrir miðri síðu). Hún á merkilega við í dag…
Persónuleg persónukjör um persónu persónuleikans!
Nú er uppi mikil umræða um persónukjör og kosti þess og galla. Ef ég þyrfti að benda gesti á klassískt íslenskt pólitískt þvaður þá myndi ég benda honum á þær umræður.
Sumir halda að það eigi ekki að breyta núverndi kerfi, alla vega ekki núna, kannski seinna að vel ígrunduðu máli. Hinir vilja breyta kerfinu strax með eigin útfærslu á kosningakerfinu og svo er karpað um þetta daginn út og daginn inn.
Mér dettur eitt í hug. Hvernig væri að líta í kringum okkur! Finnar til dæmis eru með öðruvísi kosningakerfi en okkar. Það er einhvers konar form af „persónukjöri“ þ.e.a.s. listar eru ónúmeraðir (ef ég skil Wikipediu rétt). Hvernig væri að tala við sérfræðinga í finnskum kosningalögum, sjá hversu flókið það væri að koma því á koppinn. Ef það er ekki flókið þá notum við það í næstu 2-3 kosningum og sjáum hvort að þjóðin sé sátt við það. Mætti til dæmis láta segja hug sinn á kerfinu í forsetakosningum eða jafnvel líka alþingiskosningum. Ef það eru áhöld núna um það hvort að þjóðin vilji í raun nýtt kerfi (sem ég efast um) þá væri ekki úr vegi að spyrja um hug fólks til núverandi kefis annað hvort með mjög stórri skoðunarkönnun eða helst meðfram alþingiskosningum í vor.
Það sem má ekki gerast er að láta núverandi alþingismenn ákveða hvers konar kosningakerfi á að vera í landinu. Það ætti að vera í höndunum á stjórnlagaþingi.
Ég vildi og vil enn kjósa strax. Það átti að kjósa í endaðan janúar . Þá værum við ekki í þessu rugli. En úr því sem komið er skulum við kjósa í vor samkvæmt hefðbundnum leiðum en þó væri gott að afnema 5 % regluna og gera nýjum framboðum og gömlu flokkunum kleift að bjóða fram ónúmeraða lista ef þeim sýnist svo. Það er víst ekki flókið mál, ein setning í kosningalögunum.
Svo er bara að bíða og hlusta vel á bullið í stjórnmálamönnum fram á vor og passa sig á því að gleyma ekki og kjósa rétt!
SUS
Ég var að glöggva (e. google) SUS (samband ungra sjálfstæðismann) áðan og þegar ég myndaglöggvaði SUS kom þessi mynd upp nr.2 á eftir berbrjósta stelpu:
Tilviljun? Held ekki.
Svartsýnn á framtíðina
Ég á erfitt þessa síðustu daga. Ég horfi á alla fréttatíma, fréttaauka, Silfur Egils, Kastljós, Ísland í dag og les alls kyns blogg. Og ég er máttarlaus. Ég vil taka þátt í umræðunni, ég hef skoðanir og ég vil taka þátt í að uppfæra Ísland úr Windows yfir í Linux (nördanefúðainnblástur). En ég hef óbeit á stjórnmálaflokkum. Þeir sem þekkja mig vita vel að ég hef skrýtnar og stundum sterkar skoðanir sem ég get stundum ekkert rökrétt. Ég vil bara ekki taka þátt í þessu pólitíska rugli sem viðgenst fyrir þessar kosningar. Ég vil fá nýtt kerfi, nýja stjórnarskrá og nýja hugsun. Prófkjör eru fáránleg og ekki bætir fléttulistakerfi (flott orð yfir kynjakvóta) úr skák. Öllu verst er þó þegar einhver kjörnefnd raðar á lista. Ég er ekki að sækjast eftir sæti á alþingi, ég er að sækjast eftir betra stjórnkerfi svo ég hafi minni áhyggjur af framtíðinni.
Afhverju eru prófkjör svona kjánaleg? Það eru 18 sæti á framboðslista. Þeir sem vilja bjóða sig fram, (ekkert 4-9 sætis rugl) bjóða sig fram og flokksmenn kjósa. Síðan er gefið út hvaða 18 komust áfram en ekki í hvaða röð þeir lentu. Síðan taka almennir kjósendur við og velja þann frambjóðanda þeim lýst best á. Fyrir mér gæti þetta ekki verið einfaldara og lýðræðislegra.
En ég er á því að í okkar fámenna landi sé flokkapólitík alls ekki besta formið á stjórnmálum og það sést best á fundum á Alþingi…