Skip to content

Mikið búið þegar þetta er búið…

24 apríl, 2009

Ég hef ekki bloggað síðan fyrir páska. Það hefur sínar eðlilegu skýringar. Það hefur verið mikið að gera í skólanum síðasta mánuðinn (ég er ekki hættur enn!). Ég sé fram á klára þessu önn, á aðeins eftir 3 próf og 2 verkefni. Síðasta próf er 7. maí og daginn eftir á ég að mæta til vinnu á Hótel Reynihlíð sem aðstoðarmaður kokksins. Ég verð að vinna þar í sumar og leggst það bara mjög vel í mig. Ég held að ég eigi vel heima í eldhúsinu, svo fæ ég ábyggilega líka að vaska upp og þrífa eitthvað 🙂 Þuríður stækkar örlítið á hverjum degi og eykst gremjan sömuleiðis hjá henni í sama hlutfalli. Hún vill fara að klára þetta og lái henni hver sem vill. En það eru allir heilbrigðir og það gengur allt vel. Það er búið að fá barnavagn, skiptiborð, bleyjur (við ætlum í taubleyjurnar), samfellur og svo er búið að prjóna peysur, húfur og sokka. Mig hlakkar rosalega til að verða pabbi og get ekki beðið að fá að handleika krakkann. Við styttum í sífellu nafnalistan og vonandi verðum við búin að velja þegar Kólumbus ákveður að láta sjá sig.

Mig langar að nota þessa bloggsíðu til að minnast afa míns sem lést um páskana. Ég skrifaði ekki minningargrein þar sem ég hreinlega gat það ekki á þeim tíma. Ég bara gat ekki fengið mig til þess. En núna er ég búinn að kveðja afa og langar að skrifa örlítið um hann.

Á föstudaginn langa lést afi Hreinn. Hann hafði fengið slag um viku áður og var lagður inn á sjúkrahús. Talið var að hann ætti ekki mikið eftir en ekki vitað hversu mikið. Ég og Þuríður komum vestur á þriðjudegi fyrir páska. Ég kíkti á afa á miðvikudeginum en þá steinsvaf hann og við ákváðum að vekja hann ekki. Á föstudeginum fréttum við það að honum hafi hrakað og eigi ekki mikið eftir, muni jafnvel ekki lifa af daginn. Ég fór niður á sjúkrahús til að kveðja afa. Ég var engan veginn tilbúinn til að takast á við það. Afi andaði hægt og gat eki tjáð sig og varla hreyft sig. Ég átti erfitt með að horfa á hann en það hjálpaði að tala við ömmu sem sagði mér að það væri fyrir bestu að hann færi núna því að afi myndi aldrei vilja vera í hjólastól eða eiga heima á sjúkrahúsi. Ég sættist á þessi rök ömmu en var ósáttur, vildi ekki missa hann. Við fórum heim til að borða og tókum ömmu með okkur. Þegar við ætlum svo að setjast niður við matarborðið hringir síminn, amma er boðuð niður á sjúkrahús í hvelli. Hún rétt náði að kveðja afa sem lést rétt um hálf átta. Ég var bæði sáttur við að þetta væri búið en á sama tíma ekki sáttur við að missa hann. Hann átti ekki að fara strax. Hann átti að fá að halda á syni mínum.

Á laugardeginum hittist fjölskyldan öll eins venja er á páskum, við elduðum lambalæri og áttum góða stund þrátt fyrir nokkur hávaða rifrildi um homma og facebook. Ég kíkti á aldrei en mig langaði eiginlega ekki að vera þar, ég vildi helst vera heima.

Á mánudeginum keyrðum við Þuríður heim aftur til að fara í skólann og skila verkefnum. Ég flaug síðan vestur aftur á fimmtudegi. Kistulagningin var á föstudeginu, Ég hef aldrei tekið þátt í því áður. Það var mjög erfitt og ómögulegt að halda aftur af tárunum. En þetta var nauðsynlegt og mjög gott að geta kvatt afa sinn svona. Afi var jarðaður á augardeginum. Athöfnin var yndisleg. Karlakórinn Ernir söng og flutt vöru uppáhalds lögin hans afa. Ég var kistuberi og er það eitt það erfiðasta sem ég hef gert á minni stuttu ævi. En ég er svo feginn að hafa geta gert það.

Ég mun sakna hans svo ótrúlega mikið. Ég eyddi flestum af mínum æskusumrum í Aðalvík með ömmu og afa. Og ég átti heima í kjallarnum hjá þeim í næstum því tvö ár. Ég sé mest eftir því að hafa ekki verið duglegri við að heimsækja afa og vera með honum á meðan ég hafði tækifæri til. En afi var orðinn þreyttur eftir erfið veikindi og var alls ekki sáttur við stöðu sína. Minnið glöppótt og þrekið ekki að það sama og hann var vanur. Nú hvílist hann og getur gert það sem honum langar til. Ég hef minningarnar og þær eru margar. Ég mun aldrei fara til Aðalvíkur eða um borð í skektuna án þess að minnast afa míns sem kenndi mér svo margt og sagði mér svo margar sögur. Hann var stríðinn en aldrei leiðinlegur. Hann var besti afi í heimi. Megi hann hvíla í friði.

15 athugasemdir leave one →
  1. Tinna permalink
    24 apríl, 2009 10:37 f.h.

    Mikið er þetta fallega skrifað Benni minn.

  2. 25 apríl, 2009 7:28 e.h.

    Samúðarkveðjur Benni minn. Falleg orð. Ég fékk stóran hnúð í hálsinn.

    En Kólumbus finnst mér ekki gott nafn á erfingjann. Cristobal Colón, sá sem þú ert líklegast að vísa í, var nú ekkert sérlega góður gaur.

    Hvað með „Haukur“?

  3. 27 apríl, 2009 8:23 f.h.

    Mér þykir nú liggja beinast við að nefna gríslingin Hrein.

    Mér þóttu þetta falleg skrif Benni og langar helst til að knúsa þig en verð víst að láta duga að senda stafrænar samúðarkveðjur í staðinn.

    Hvað varðar bleyjurnar þá ætla ég að koma af stað veðmáli um hversu fljót þið verðið að gefast upp á tauinu og snúa ykkur að Pampers. Ég gef ykkur tvo mánuði.

  4. Hilda permalink
    27 apríl, 2009 11:13 f.h.

    fallega skrifað Benni minn, ég sendi mínar innilegustu samúðarkveðjur…..gott að lesa þetta því afar eru svo góðir, yfirleitt frábærar fyrirmyndir og kenna manni hvernig gott sé að takast á við lífið…..skemmtilegt að lesa um skektuna og frábær minning fyrir þig….knús til þín Benni verðandi góður pabbi og síðar ábyggilega frábær afi;)
    Hilda

  5. Tinna permalink
    27 apríl, 2009 11:28 f.h.

    Ég tek veðmáli Sæla. Þar sem Benni er þrjóskari en andskotinn ætla ég að segja 5 mánuðir. Þegar fer að koma alvöru mannaskítur held ég hins vegar að þau fái nóg.

  6. Gylfi permalink
    28 apríl, 2009 5:32 e.h.

    Ég hef boðið öllum vinum mínum 10 þúsund króna greiðslu í reiðufé, ef skírt er í höfuðið á mér. Það boð stendur ykkur til boða.

  7. 28 apríl, 2009 9:42 e.h.

    15 þúsund!

  8. 28 apríl, 2009 11:32 e.h.

    Fáum við sem sagt 25 þúsund krónur (viljum helst evrur þó) ef við skírum drenginn Hauk Gylfa eða Gylfa Hauk?

    kv, Benni og Þuríður

  9. 28 apríl, 2009 11:57 e.h.

    segjum 30 þúsund ef það verður: Tómas Árni Haukur Gylfi Benediktsson

  10. Haukur permalink
    29 apríl, 2009 3:51 e.h.

    Nei. 15 thùsund krònurnar eru adeins ì bodi fyrir fyrsta nafn. Haukur Gylfi Benediktsson gaeti thannig alveg gengid. Mèr thykir thò lìklegt ad Gylfi vilji einhvern afslàtt fyrir seinna nafn.

  11. 29 apríl, 2009 4:56 e.h.

    Mér þykir nú gróft af Tómasi að ætla sér að fá tvö nöfn fyrir fimmúskall….

  12. 29 apríl, 2009 6:15 e.h.

    Þetta var ótrúlega hjartnæmt blogg, fékk alveg kökk í hálsin. Aldrei gaman að kveðja þá sem manni þykir vænt um.

    En þetta með taubleyjurnar, ég held að Þuríður meiki þetta lengur en þú… Vinir mínir sem eignuðust stelpu síðasta sumar, hafa verið á taubleyjum frá byrjun og þau eru húkt, voru að missa tökin á tímabili en þegar þau keyptu fyrsta pampers pakkan að þá sáu þau hreinlega ekki fram á að eiga efni á að vera ekki á taui.

    Svo finnst mér Marteinn voða fallegt nafn…

  13. Dóróthea permalink
    29 apríl, 2009 9:46 e.h.

    Svona til að bæta í nafnaumræðuna þá vil ég minna á að langamma okkar (sem ég er skírð í höfuðið á) var skírð í höfuðið á Dósóþeusi afa sínum. Dósóþeus er náttla klassík! Af sama meiði (og úr sömu fjölskyldu) eru nöfnin Tímóteus og Þeofílus.

  14. Tinna permalink
    29 apríl, 2009 10:34 e.h.

    Bíðið þið öll hæg! Var ekki löngu búið að ákveða að þetta barn ætti að heita Tinnfi? Þið megið ekki gleyma því hver það voru sem kynntu ykkur og hvöttu til fyrsta sleiksins!
    Gylfi vill síðan koma því að, að hann er tilbúinn til að hækka boðið í 20.000 kall ef púkinn verður skírður í höfuðið á honum, þ.e. fyrra nafn og ekki bara sama nafn og hann ber heldur HÖFUÐIÐ, höfuðið.

  15. 29 apríl, 2009 11:06 e.h.

    Hingað til hafa nöfnin Agni Magni og Andri Tandri verið ofarlega á listanum ásamt Þorsteinn Steinn og Guðlaugur Sigurlaugur.

Skildu eftir svar við Marta Sif Hætta við svar