Skip to content

Bílastæði

21 september, 2010

Að finna hið eina rétta bílastæði, bílastæðið sem skilar okkur sem fyrst inn á tilætlaðan áfangastað, er vanfundin hamingja. Þegar maður keyrir af stað leiðir maður strax hugann að því hvar eða hvort maður fái bílastæði á þeim stað sem maður óskar sér. Bílastæði eru eins og kynlíf, þau láta mann gleyma stað og stund, öll rökhyggja og skynsemi flýgur út um gluggann og frumeðli mannskepnunar brýst fram með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Það er nefnilega svo að þegar fólk hringsólar um bílastæðahús og lóðir þá eyðir það miklu meiri tíma í að finna rétta bílastæðið í stað þess að leggja bara í fyrsta lausa stæðið og ganga þaðan. En það er einhver frumhvöt sem gerir það að verkum að við verðum að finna þetta stæði, þá höfum við sigrað bílastæðaplanið og alla hina ökumennina. Ef það gengur hins vegar ekki að finna bílastæðið þá tekur við örvænting og óhamingja, hjartslátturinn eykst og blóðþrýstingur hækkar, blótsyrði sem maður lærði af forfeðrum sínum smjúga í hálfum hljóðum í gegnum samanbitnar varirnar. ,,Andskotinn, ég legg bara hér!”. Og viti menn, maður er búinn að leggja ólöglega. Að leggja ólöglega er eins að nota ekki smokk við skyndikynni. En af hverju leggur fólk þar sem er bannað að leggja, þar sem bílar eiga ekki að vera?
AF ÞVÍ AÐ ÞAÐ ERU EKKI NÆG BÍLASTÆÐI
Og af því að fólk virðir ekki leikreglur samfélagsins, maður stoppar á rauðu, hleypir fólki yfir við gangbraut, keyrir ekki á 90 innanbæjar, maður notar bílbelti, talar ekki í símann í akstri, keyrir ekki fullur og leggur ekki þar sem ekki má leggja. Ekki vera karlinn sem keyrir um á risastórum Ford pallbíl og leggur alltaf beint fyrir utan áfangastað sinn burtséð frá því hvort að þar sé stæði eða ekki. Ekki viltu vera eins hann í framtíðinni. Er það?
Nú er þessi pistill skrifaður þar sem undirritaður mætti seint í tíma þar sem hann fann ekki bílastæði fyrr en í næsta póstnúmeri. Þegar ég byrjaði í Háskólanum á Akureyri þá var bílastæði eitt stórt malarhaugur en næg voru bílastæðin. Núna er hins vegar búið að malbika, helluleggja og gróðursetja. Bílastæðum hefur fækkað á kostnað fegrunar á bílaplani. Ég vil fá malarhauginn aftur!

Þriggja gráðu tvífarar

22 janúar, 2010

Helgi Svavar trommari í Flís og Hjálmum

Lesa meira…

Gulir bílar og syngjandi hippar

6 október, 2009

IMG_8709Honduklúbbur Selfoss er mættur á svæðið!

Hippar að syngja lag úr Hárinu

Bjarni Pétur Jónsson Bolvíkingur með meiru syngur lag úr söngleiknum Hárinu ásamt Birgittu Haukdal og Írisi úr Buttercup.

Davíð og Moggafárið

25 september, 2009

Þá er maður búinn að lesa fréttirinar, hlusta á fréttirnar, viðtöl og fylgjast með statusstríði á Snjáldurskinnu. Það er forvitnilegt hvað fólk er fljótt að leggjast í skotgrafirnar og fleygja rökhugsun sinni beint á haugana þegar talið berst að Davíð Oddsyni.

Útgefendur Moggans mega að sjálfsögðu ráða þann sem þeir vilja í starf ritsjtóra, enginn efast um það. En það sem fólk er að benda á er hagsmunaárekstur þegar kemur að umfjöllun um fréttir tengd, hruninu, seðlabankanum og Sjálfstæðisflokkun sem dæmi. Blaðamaður sem er að fjalla um aðgerðir fyrverandi Seðlabankastjóra í aðdraganda hrunsins lendir í því að sá aðili ritstýrir honum. En þegar þetta dæmi er sett fram þá hlaupa Dabba menn upp til handa og fóta.

Guðmundur Guðjónsson segir: „Fólk eru fífl. Fólk að segja upp mogganum í tonnavís afþví að Davíð er þar, en á sama tíma eru þúsundir manna með áskrift að Stöð 2 sem er í eigu eins af mestu glæpamönnum þjóðarinnar, Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Kræst“

Gunnar Atli Gunnarsson segir: „Á ekki Jón Ásgeir ennþá Stöð 2 og Fréttablaðið ? Ég held að fólk ætti að hafa meiri áhyggjur af trúverðuleika þessara miðla en Morgunblaðsins.

Sem sagt, rökin fyrir því að það sé eðlilegt að Davíð sé ritstjóri Moggans eru þau að Jón Ásgeri eigi Stöð 2 og Fréttablaðið. Með sömu rökum má segja að ef fólk finnst eðlilegt að Davíð sé ritstjóri þá sé allt í lagi að Jón Ásgeir eigi Stöð 2 og Fréttablaðið.

Það er engin að segja að það sé gott eða eðlilegt að Jón Ásgeir eigi Stöð 2 eða Fréttablaðið en Dabba menn benda á Jón Ásgeir og segja: „Hann er að gera það, afhverju megum við það ekki líka?“

Afhverju geta stuðningsmenn Davíð ekki séð að það að það er í besta falli vafasamt og í versta falli rangt að Davíð sé ritsjóri eins stærsta fjölmiðils landsins. Alveg jafn vafasamt og slæmt og að Jón Ásgeir eigi Stöð 2 og Fréttablaðið. Ég man ekki betur en Davíð sjálfur hafi sagt að ekki væri æskilegt að auðmenn (lesist Jón Ásgeir) eigi fjölmiðla. Nú er sú staðreynd að auðmaður eigi fjölmiðil helsta vörn aðdáenda Davíðs.

Ég ætla ekki að hætta að lesa mbl.is eða Morgunblaðið en ég mun setja upp sömu tortryggnisgleraugu og ég nota við lestur Fréttablaðsins, visir.is og dv.is.

Þegar fólk les, horfir eða hlustar á fjölmiðil þá á það alltaf að hafa í huga, hver á þá og hver stýrir þeim.

Svo finnst mér skrýtið að engin spyrji út í þá hagræðingu að Mbl reki 1 ritstjóra (sem hlýtur að fá borgaðan uppsagnarfrest eða starfslokasamning) og ráða 2 í staðinn.

Nýtt útlit og nýtt haust

3 september, 2009

Jæja, þá er haustið komið, mér til ómældrar ánægju. Enda var sumarið hér nyðra alltof heitt fyrir undirritaðan. Ég lofa að vera duglegur að blogga í vetur. Tíu fingur upp til guðs!

Krúttsprengja!!

11 júní, 2009

Varúð – Rosaleg krúttsprengja!

mynd_003d9539

mynd_a69ca62f

mynd_ed34f9b0

mynd_f16f02a5

Jæja…

3 júní, 2009

Nú er komið að stórbloggfærslu (hún er skrifuð í svokölluðum belgogbiðustíl og ég biðst fyrirfram velvirðingar á málfars og stafsetningarvillum):

Síðasta færsla mín endaði með þeim skilaboðum að ég væri að fara norður með barnadót og að gera íbúðina klára fyrir komu sonarins í heiminn en ýmislegt (eiginlega allt) fór öðruvísi en áætlað var.

Þegar ég kem keyrandi norður að kvöldi sunnudagsins 10. maí grunaði mig ekki að sonur minn yrði kominn í heiminn 5 tímum seinna. Ég kom upp úr kl 20 það kvöld 0g fór beint á spítalann til að hitta Þuríði. Hún var hress, með smá hausverk en annars góð að eigin sögn. Ég sat hjá henni þangaði til að verða 22:30, skellti mér þá heim, ætlaði að fá mér að borða, fara í sturtu og reyna svo að sofna því ég var frekar þreyttur eftir keyrslurnar suður og norður. Daginn eftir ætlaði ég að tæma bílinn af dóti, setja saman barnarúm, vöggu, skrifborð og skiptiborð, skúra, vaska upp og setja í eina eða tvær þvottavélar. Þegar ég kem úr sturtu rétt eftir miðnætti hringir síminn. Þuríður segir mér að drífa mig á spítalann því að það sé búið að ákveða að taka soninn með keisararskurði núna strax. Hausverkurinn hafði versnað og Þuríður var farinn að sjá stjörnur fyrir augunum. Alexander (læknirinn okkar) vildi ekki taka neina sénsa og við treystum honum fullkomlega. Hálftíma síðar er ég kominn í grænan skurðstofugalla, með hárneti og í klossum. Ég fékk að vera viðstaddur aðgerðina og hélt í höndina á Þuríði sem var vakandi á meðan öllu stóð. Klukkan 01:31 þann 11. mái kom sonur minn í heiminn. Hann grét stuttu seinna og ég fékk að skoða hann aðeins. Hann var 7 merkur (sem er oggupínuponsulítið) og 44 cm á lengd. Myndarpiltur í alla staði. Aðgerðin gekk vel og heilsaðist móður afar vel. Henni var rúllað upp á gjörgæslu og var þar yfir nótt. Ég fór upp á barnadeild til að kíkja betur á drenginn og taka myndir fyrir Þuríði sem hafði aðeins fengið að sjá hann í nokkrar sekúndur eftir að hann kom út. Næstu tveir dagar gengu fyrir sig eins og við var að búast. Þuríður braggaðist nokkuð vel og var fljótlega farinn að ganga. Drengurinn var hress, var í hitakassa en þurfti ekki hjálp við anda. Allt virtist vera í lagi. Honum var strax gefið nafnið Ernir.

Að morgni miðvikudagsins 13. maí kom ljósmóðir til okkar og sagði okkur að Erni hefði hrakað nokkuð um nóttina, hann hafði ekki melt neitt af matnum sem hann fékk klukkan 23 og var kviðurinn á honum uppblásinn, stífur og eldrauður. Læknarnir héldu að þetta væri líklegast sýking í kringum naflann og höfðu sett hann á sýklalyf til að vinna á henni. Við drifum okkur til að kíkja á hann og þá, samkvæmt lækni og hjúkrunarkonu, leit hann betur út en um nóttina. Töldu þær að þetta væri að öllum líkindum bara sýking sem að sýklalyfin myndu vinna á. Við fórum með þessar fréttir aftur yfir á fæðingadeild þar sem ég reyndi að róa Þuríði því að hún þurfti að hvíla sig. Þegar hún var að sofna sagði ég henni að ég ætlaði að fara heim og þvo barnaföt og föt á mig. (Þegar þarna var komið við sögu hafði mér tekist að skellaí eina vél daginn áður með fötum af mér og Þuríði, það átti eftir að koma sér vel síðar). Þuríður bað mig um að koma við hjá Erni á barnadeildinni og athuga með hann. Þegar ég er að stíga út úr lyftunni hjá barnadeildinni mæti ég lækninum hans sem segir mér að þeir ætli að senda Erni suður með sjúkraflugi vegna þess að honum hafi hrakað aftur um hádegið. Ég fer með lækninum til Þuríður þar sem hún útskýrði fyrir okkar afhverju það ætti að senda hann suður. Læknarnir óttuðust að hann gæti verið með gat á görnunum sem kæmi þannig í veg fyrir að hann gæti melt. Fyrir sunnan væru sérfræðingar í fyrirburum og betri myndavélar og græjur. Þetta væri varúðarráðstöfun þar sem þetta væri að öllum líkindum bara sýking. Ég fékk 10 mín til að hendast heim til að setja í tösku föt og aðrar nauðsynjar ásamt því að láta foreldra okkar vita. Ég flýtti mér svo mikið að ég steingleymdi að taka aukabuxur á mig eða aðra skó. Ég fór suður á sandölunum. Sjúkraflugið tók á. Aumingja Þuríður var náttúrulega í engu standi tilfinningalega til að takast á við þetta og ekki bætti það úr skák að hún var óluð niður í fluginu og lá þannig að hún sá ekki Erni. Ég þurfti því að halda andlitinu og hughreysta hana alla leið suður. Ernir var í 200 kg ferðahitakassa og varð alls ekki meint af fluginu. Með í för voru nýburalæknir og sjúkraflutningamaður sem reyndust okkur vel á leiðinni.

Við komuna á Landspítala-Háskólasjúkrahús við Hringbraut fengum við móttökur sem við áttum alls ekki von á þrátt fyrir viðvaranir ættingja. En meira um það seinna. Þeim verða gera betri skil hér seinna. Við skulum bara orða það þannig að ég er ennþá reiður.

Ernir fór beint á vökudeild barnaspítala Hringsins og var settur í alls kyns prufur og myndatökur. Þegar við loksins hittum lækni sagði hann okkur að þeir sæju ekkert á myndum sem benti til gats á görnum og líklegast væri þetta bara sýking. Hann væri kominn á sýklalyf og að við ættum bara að taka einn dag í einu. Við hjónaleysin voru uppgefin, pirruð og áhyggjufull. Þuríður var lögð inn og ég svaf á sófanum hjá Dórótheu og Magna. Daginn eftir náði Þuríður að útskrifa sig og við gistum hjá mömmu hennar í eina nótt en síðan fengum við íbúð hjá Barnaspítalanum sem ætluð er foreldrum barna sem dvelja þar og eru utan af landi. Þá nótt (aðfaranótt laugardagsins 16.maí) sváfum við loksins heila nótt. Ég hafði ekkert sofið að ráði frá því að ég fór suður viku áður til að sækja dótið og þegar ég lagðist upp í rúmið í lánsíbúðinni þá gat ég ekki meir. Ég var svo uppgefinn. Ég gat loksins leyft mér að hafa áhyggjur því að ég þurfti að stappa stálinu í Þuríði og láta hana ekki sjá að ég hefði áhyggjur. Það einhvern veginn hlelltist það yfir mig að ég væri orðinn pabbi, að ég bæri ábyrgð á þessu litla kríli, að ég ætti að koma honum til manns. Það er erfitt að lýsa þessari tilfinningu með orðum. En ég var svo áhyggjufullur en samt svo glaður um leið.

Næstu dagar í Reykjavík snérust um Erni. Frá hádegi og til miðnættis vorum við hjá honum á þriggja klst. fresti og skiptum á honum og gáfum honum að borða. Það tók yfirleitt um klukkutíma. Við höfðum því tvo tíma á milli gjafa sem við nýttum í að heimsækja ættingja, versla nauðsynjar og til að mjólka Þuríði sem mjólkar eins og verðlaunakýr úr Borgarfirðinum. Eftir u.þ.b. 3-4 daga í Reykjavík var sýkingin horfin og Ernir farinn að drekka og kúka eins og herforingi. Hann fór loksins að þyngjast. Í dag er hann 49 cm á lengd og tæp 2500 grömm. Hann fæddist 44 cm og 1805 grömm. Þannig að hann braggast vel. Á laugardaginn síðasta fengum við að fara í svokallað foreldraherbergi á spítalanum. Þangað fá foreldrar að fara með börnin áður en þau útskrifast til að athuga hvort að allt gangi vel fyrir sig. Barnið borði vel og að foreldrarnir geti sinnt því án þess að fá taugaáfall. Við vorum þar í tvær nætur og allt gekk vel. Í gær var Ernir síðan útskrifaður, þrem vikum eftir að hann fæddist. Þvílíkur léttir. Við gistum eina nótt hjá mömmu hennar Þuríðar og ætlum að leggja af stað keyrandi norður á eftir. Þuríður hefur ekki komið heim í íbúðina í mánuð og verður gaman að koma með hana í hreina og fína íbúð þar sem allt er klárt og fínt. Ég fór nefnilega vinnuferð norður til að ganga frá íbúðinni. Fékk far með Kiddý systir  og Tóta sem voru að fara í brúðkaup. Ég ætlaði að gista eina nótt, ganga frá íbúðinni og keyra svo suður á bílnum okkar. Ég spurði Dórótheu hvort að hún vildi koma með til aðstoða mig og vera selskapur minn á leiðinni. Það var ekkert mál og þar sem við fórum á miðvikudegi norður og komum á uppstigningardegi til baka þá ákvað Magni að slást með hópinn. Þetta einvala lið hjálpaði mér mikið. Okkur tókst að þrífa alla íbúðina, ganga frá öllu dóti, setja allt saman og þrífa og strauja öll barnafötin. Ástarþakkir fyrir hjálpina.

Við Þuríður höfum stundum svarað illa í símann og gleymdum oft að láta vita og hefðum viljað hitta mikið fleiri en við gerðum en það gafst ekki alltaf nægur tími til þess. Við erum hins vegar alveg til í að taka á móti gestum fyrir norðan fyrir þá sem langar að koma í heimsókn. Við vorum ekki oft í internetsambandi og blogguðum því lítið og vorum eiginlega ekkert á facebook  eða msn. Okkur tókst þó nokkrum sinnum að henda inn myndum af Erni á síðuna hans. nino.is/ernirben

Ef ykkur langar í lykilorðið ekki hika við að senda mér facebook skilaboð, sms eða e-mail. Á síðunni hans er líka ítarleg frásögn sem Þuríður skrifaði um atburðarrásina og svo líka á thuridurp.bloggar.is

Takk fyrir allar kveðjurnar og ég mun fljótlega setja inn fleiri færslur og kannski myndir líka.

Af lífinu

9 maí, 2009

Það er mikið að gerast þessa dagana og lítill tími fyrir bloggfærslur. Þannig að ég skelli núna í eina svona „hvað er að gerast hjá mér?“ færslu. Gessovell

Ég er sem sagt búinn með skólann. Skilaði öllum verkefnum og tók öll próf og gekk bara nokkuð vel og er ég mjg sáttur við önnina. Ég hefði nú ekki getað það án allrar hjálparinnar frá Þuríði því að hún gaukaði að mér gömlum verkefnum og prófum og var mér mikil stoð og stytta í gegnum allt námið.

Af Þuríði er hins vegar ekki alveg allt gott að frétta. Í lok apríl fór hún að mælast með háan blóðþrýsting og var kominn með frekar mikinn bjúg. Henni var ráðlagt að leggjast fyrir heima við og gera ekki neitt. Bara að fara á klósettið og í sturtu. Ég tók yfir stjórn á heimilinu og hefur það tekist bara nokkuð vel. Svo á mánudaginn síðasta fórum við í skoðun upp á fæðingadeild og þar mældist hún enn með of háan blóðþrýsting ásamt því að mælast með prótín í þvagi og vera ennþá frekar bjúguð. Hún var lögð inn í sólahring til að fylgjast betur með blóðþrýsing og skoða þvag. Eftir sólarhring var ákveðið að halda enni í einn í viðbót. Eftir tvo sólarhringa sagði læknirinn okkar að Þuríður væri með meðgöngueitrun og nokkuð alvarlega í þokkabót. Hún var lögð inn til frambúðar og fer ekki heim fyrr en barnið kemur í heiminn. Læknirinn sagði okkur þau ætluðu að reyna að bíða í tvær vikur með að láta barnið fæðast. Þá verður Þuríður kominn tæpar 36 vikur. En ef blóðþrýstingur heldur áfram að hækka ásamt því að Þuríður fái verki í kvið og mikinn hausverk þá muni þau byrja fæðingu fyrr. Læknirinn sagði öruggt að barnið muni ekki fæðast í júní. Þuríður var sett 20. júní. En Þuríður er sjálf hress og barnið mælist í góðu lagi, fínn hjartsláttur og hreyfingar.

Þetta setti að sjálfsögðu smá strik í reikningin. Við vorum að vísu búinn að redda ýmsu, bílstól, bleyjur og eitthvað af fötum. En barnavagninn, barnarúmið ásamt mörgu öðru var búið að kaupa en voru ennþá í Reykjavík. Ég þaut því suður í gær og fór í það ásamt tengdó að redda öllu sem redda þurfti. Pétur pabbi hennar Þuríðar var að koma að utan og var bílinn hans fylltur af fyrrnefndum hlutum ásamt fullt af öðru. Það var líka alltaf vitað að ég þyrfti að koma suður um miðjan maí til að taka saman restina af mínu dóti sem er ennþá hjá Bigga. Þannig að ég keyri heim á morgun með fullan bíl af kössum og alls kyns gersemum.

En svona er þetta. Það verður ekki á allt kosið. Sonurinn kemur fyrr en áætlað var og ekkert að gera við því nema að undirbúa sig vel. Ég hef það hlutverk að vera stoð og stytta. Ég þarf að gera heimilið klárt og passa að Þuríður þurfi ekki að hafa neinar áhyggjur af neinu. Og þannig verður það. Svo hef ég góða að fyrir norðan sem eru tilbúnir að hjálpa okkur með hvað sem er.

Upplýsingarýni Benna

1 maí, 2009

skatta-1skatta-2

Þessi auglýsing birtist í Fréttablaðinu þann 20/04/09 – Heilsiðuauglýsing. Hún varð að miklu fjölmiðlafári sem snérist um yfirvofandi skattahækkanir VG. Ég er mikill áhugamaður um tölfræði, auglýsingar og þá sérstaklega lélega tölfræði og vondar auglýsingar. Þessi heilsíða sameinar þessi tvö áhugamál mín. Og mig langar að fá frá ykkur það sem ykkur finnst vera vitlaust, illa gert eða bara það sem ykkur finnst um þetta. Þessi auglýsing var tekinn fyrir í upplýsingarýnitíma hjá mér um daginn og vakti mikla kátínu meðal nemenda.

Hvenær er barn ekki lengur barn?

30 apríl, 2009

Fréttin um stúlkuna sem var keyrð upp í Heiðmörk og hún þar barinn til óbóta af 7 jafnöldrum hennar (15-16 ára) reitir mig til reiði. Þessar stúlkur sem lömdu hana verða að fá almennilega refsingu, ekki skilorðsbundin dóm eða brottrekstur úr skóla. Ef unglingar hópa sig saman til að berja einhvern einn einstakling þá eru þau ekki börn lengur og eiga að vera dæmd eins og fullorðnir. Ef þær fá ekki refsingu við hæfi þá munu svona atvik aukast. Við höfum séð sem slagsmálin í Keflavík þar sem strákur sem æfði box barði skólabróður sinn í höfuðið. Að ógleymdum slagsmálum í Kringlunni og á Lækjartorg sem rötuðu á Youtube. Unglingar verða að sjá að svona hegðun hefur meiri afleiðingar en skilorðsbundin dóm eða missa úr skóla í nokkrar vikur.

Samkvæmt sérfræðingi í svona dómsmálum þá telur hún ekki líklegt að gerendur fái harðan dóm. Líklegast væri skilorðsbundin dómur.

En kannski hljóma ég bara eins og æst húsmóðir í Vesturbænum 🙂